Um Reiki
Mér hefur oft þótt í gegnum tíðina að kennslu í Reiki hafi verið verulega ábótavant og í raun lítil virðing borin fyrir þessari heilögu aðferð sem Reiki er.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna þetta er án þess kannski að komast að einhverri einni niðurstöðu, en tel að það geti að hluta til verið sú arfleifð sem frú Takata skilaði til Reikikennara að henni genginni.
Sannleikurinn er sá að það Reiki sem hún kom með til vesturlanda og eignaði sér í raun þó að hún kenndi það í nafni Usui, er alls ekki það sem hann iðkaði og kenndi í Japan. Sagan er einfaldlega röng.
Árið 2001 kom út bók „ The Spirit of Reiki“ eftir William Lee Rand, Walter Lubeck og Frank Arjave Petter. Í þessari bók er saga Reiki rakin frá upphafi þ.e. frá því að Usui fann að nýju þessa þekkingu og aðferð sem að sjálfsögðu hafði alltaf verið til.
William Lee Rand er að mínu viti einn sá reikimeistari og kennari sem hefur yfirgripsmesta þekkingu og reynslu af því að vinna með og kenna Reiki. William var einn af kennurum Bergs Björnssonar reikimeistara sem þýddi kennsluefni eftir hann ásamt Jóni O. Leóssyni og þegar ég fór að kenna leyfði Bergur mér að nota þetta efni sem grunn í mína kennslu. Ég er síðan búin bæta við og skrifa bók um Reiki sem er í raun kennsluefnið mitt ásamt fleiru tengdu Reiki og þar er m.a. kafli sem ég þýddi úr „The Spirit of Reiki“ sem heitir „Reiki í austurlöndum“ en er undir kaflaheitinu „Sagan leiðrétt“ í minni bók. Í þeim kafla rekur hann sögu Usui og Reiki eins og það var iðkað og kennt í Japan.
Í þessari bók „The Spirit of Reiki“ er annar kafli undir heitinu Reikikennsla eftir William. Þar rekur hann þær lágmarkskröfur sem ætti að gera til Reikikennslu, en vel að merkja og ég endurtek að þessi bók var skrifuð árið 2001 og þessi kafli yrði nokkuð örugglega ekki skrifaður svona núna 20 árum síðar, auk þess sem hann vitnar í tákn og aðferðir í kennslu í Japan sem við þekkjum ekki.
Reiki í nýjum tíma
En nú er annar tími og orkutíðnin slík að Reiki mun í framtíðinni eiga möguleika á að verða það sem það raunverulega er þ.e. bein tenging við almættið. Staðreyndin er nefnilega sú, að Reiki verður aldrei öflugra en sá sem iðkar það. Andleg þróun hlýtur því að vera eitt stærsta keppikefli allra þeirra sem iðka og kenna Reiki sem og allra annarra sem vinna með heilun og hugleiðsla er ein öflugasta leiðin til þess.
Ég læt þýðingu mína á þessum köflum eftir William úr bókinni „The Spirit of Reiki“ fylgja hér á eftir.
Reiki í austurlöndum
Willian Lee Rand
Reiki var uppgötvað og þróað af japana Dr. Mikao Usui, sem var meðal annars búddamunkur. Hann fæddist í Japan 15. ágúst 1865 í litlu þorpi Taniai í Yamagata-héraði í Gifu, sem er staðsett nálægt Nagoya í dag. Sumir hafa getið sér þess til, að af því að hann hafi ferðast mikið og rannsakað margt hafi hann kannski komið frá auðugri fjölskyldu. Þótt slíkt sé venjulega raunin í Japan hefur það ekki verið staðfest.1 Tilfinning mín er sú, að ferðir hans og nám hafi verið meira í stíl flökku munks sem var háður persónulegu frumkvæði, sveigjanleika og guðlegri forsjón fremur en með stuðningi af auði.
Við vitum að ungur að árum lærði hann kiko í Tendai, búddhísku musteri á hinu helga Kurama fjalli, norðan Kyoto. Kiko er japanska útgáfan af Qi Gong, fræðigrein sem ætlað er að bæta heilsu með hugleiðslu, öndunaræfingum og hægum æfingum. Það leggur áherslu á þróun og notkun Ki eða lífsorku og felur í sér aðferðir til heilunar með höndunum.
Kiko gerir ráð fyrir að maður byggi upp græðandi orku með því að nota æfingarnar áður en hún er notuð til heilunar. Þegar Kiko aðferðin er notuð er hætta á minnkandi líkamsorku, þar sem hún getur einnig dregið til sín orku þess sem heilar. Usui velti því fyrir sér hvort til væri leið til að lækna án þess að þurfa fyrst að safna upp græðandi orku sem eyddist og skildi síðan viðkomandi eftir orkulausan í lokin. Þetta var mjög mikilvæg spurning sem virkaði eins og að sá fræi huga hans; fræ sem myndi vaxa óséð, en skila sér skyndilega á djúpstæðan hátt síðar á ævinni.
Usui sensei-undanfari/frumkvöðull ferðaðist um Japan, Kína og Evrópu í leit að þekkingu. Hann ætlaði að mennta sig og lagði stund á ýmsar greinar s.s. læknisfræði, sálfræði, trúarbrögð og andlegan þroska.1 Vegna mikilla andlegra hæfileika átti hann þess kost að taka þátt í frumspekilegum hópi sem kallast Rei Jyutu Ka, þar sem þekking hans á hinum andlega heimi þróaðist áfram. Mikill áhugi hans á þekkingu skapaði þann grunn sem gerði honum kleift að átta sig á mikilvægi þeirrar mögnuðu blessunar sem hann varð aðnjótandi mörgum árum síðar.
Menntun hans og skipulagshæfileikar hjálpuðu honum að fá vinnu sem ritari Shinpei Goto, þáverandi deildarstjóra heilsu- og velferðar sviðs og síðar borgarstjóra í Tókýó. Einn af kostunum við starf hans sem ritari var að kynnast mörgum áhrifamönnum um allt Japan, sem sumir hjálpuðu honum að stofna eigið fyrirtæki og að lokum varð hann farsæll kaupsýslumaður.
Viðskiptaferill hans gekk ágætlega um nokkurt skeið, en árið 1914 fór hann að versna. Það varð til þess þar sem hann hafði nokkra þekkingu á búddisma, að hann ákvað að gerast búddamunkur. Hann einbeitti huganum að hollustu og iðkaði af krafti. Að lokum sneri hann aftur til fjallsins Kurama þar sem hann hafði stundað nám sem ungur drengur og ákvað að fara í tuttugu og eins sólarhrings meðferð á fjallinu. Þar fastaði hann, söng, bað og hugleiddi. Ein af hugleiðslunum sem hann kann að hafa iðkað fólst í því að standa huglægt undir litlum fossi og leyfa læknum að falla á höfuðið. Þessi hugleiðsla er enn stunduð á Kurama fjalli allt til þessa dags! Tilgangur þess er að hreinsa og opna krónustöðina.
Undir lok meðferðar hans í mars 1922 kom mikið og öflugt andlegt ljós inn í höfuðstöð hans og hann upplifði satori eða snögga uppljómun. Þetta ljós var Reiki orkan sem kom til hans í formi tíðnihækkunar. Vitund hans varð þá stóraukin og hann áttaði sig á því að mikill kraftur var kominn inn í hann. Hann vissi að þetta var krafturinn sem hann hafði óskað sér þegar hann hafði lært lækningar á Kurama fjalli sem barn. Hann var yfir sig ánægður. Hann vissi að hann gæti læknað aðra án þess að orka hans væri tæmd.
Usui notaði Reiki fyrst á sjálfan sig og síðan á fjölskyldumeðlimi. Hann flutti til Tókýó í apríl 1922 og stofnaði heilunarsamfélag sem hann nefndi „Usui Reiki Ryoho Gakkai“ sem á ensku þýðir „Usui Reiki græðandi samfélag”. Hann opnaði einnig heilsugæslustöð í Harajuku, Aoyama nálægt Meiji helgidóminum í miðbæ Tókýó og byrjaði að kenna og veita Reiki meðferðir. Hann þróaði síðan sex stig eða gráður fyrir þjálfun sína (samkvæmt Fumio Ogawa). Hann taldi stigin öfugt við það sem við gerum á vesturlöndum: Fyrsta stigið var númer sex og hæsta stigið var númer eitt. (Fyrstu fjögur stigin, sem voru stig sex til þrjú, er það sem frú Takata kenndi sem Reiki I. Hún sameinaði öll fyrstu fjögur stigin í eina gráðu. Þess vegna gaf hún fjórar vígslur fyrir fyrsta stigið, eina vígslu fyrir hvert stig.) Fyrstu fjögur stigin voru kölluð Shoden eða upphafsstig \ fimmta stigið var kallað Okuden eða Innri kennsla og var skipt í Okuden Zenki (fyrri hluta) og Okuden Koki (seinni hluta); og meistarastigið var kallað Shinpiden, eða Mystery Teaching.
Athugið að „meistari“ var ekki notað af Usui og er ekki notað í Japan. Það var Hawayo Takata sem bjó til þennan titil þegar hún byrjaði að kenna Shinpiden stigið árið 1970. Það hefði verið skynsamlegra að velja ekki það hugtak í andlegri vinnu, þar sem „meistari“ táknar þann sem hefur orðið fyrir uppljómun, mikill andlegur árangur sem fáir á þessari plánetu hafa náð. Shinpiden stig Reiki er einfaldlega flutt frá Shinpiden til nemandans án þess að hann þurfi að vera uppljómaður, jafnvel ekki mjög andlega þróaður í samanburði við uppljómaðan meistara. Svo að þegar fólk heyrði fyrst um Reiki og um Reiki meistarastigið, héldu sumir að það þýddi að Reiki meistari væri sambærilegur við andlegan meistara eða uppljómaðan meistara og hafði því ranghugmyndir um andlegt ástand Reiki meistara. Að auki vildu sumir verða Reikimeistarar vegna stöðu, fremur en gildis þess að miðla Reiki til annarra.
Ef Shinpiden stigið hefði áfram verið kallað Shinpiden á vesturlöndum eða einfaldlega verið kallað Reiki kennari, þá hefði ekki orðið jafnmikið egó og ranghugmyndir ríkjandi í sambandi við Reiki sem varð til þegar meistarastigið var fyrst kennt á Vesturlöndum á sjötta og áttunda áratugnum.
Usui hélt áfram að kenna og gefa meðferðir á heilsugæslustöðinni í Tókýó, en friðurinn og sáttin var úti árið 1923 eftir mikla Kanto jarðskjálftann, einn versta og hrikalegasta jarðskjálfta sem hefur riðið yfir Japan. Yfir 140.000 manns létust. Þúsundir húsa og bygginga molnuðu til jarðar og miklu fleiri brunnu í eldunum í kjölfarið. Þúsundir manna voru eftir heimilislausar og margir aðrir slösuðust eða veiktust líkamlega. Næstum allir urðu fyrir tilfinningalegri áfalli.5 Eftirspurnin eftir Reiki varð gríðarleg og Usui og nemendur hans unnu dag og nótt við að hjálpa eins mörgum og þeir gátu. Árið 1925 opnaði hann mun stærri heilunarmiðstöð í Nakano í Tókýó og ferðaðist um allt Japan til að dreifa upplýsingum um Reiki. Þörfin fyrir lækningu eftir jarðskjálftann hélt áfram í mörg ár og á þeim tíma kenndi Usui rúmlega tvö þúsund nemendum Reiki og þjálfaði sextán kennara.1 „Vegna þeirrar hjálpar sem hann veitti, heiðruðu japönsk stjórnvöld hann með viðurkenningunni Kun San To fyrir verðuga þjónustu við aðra. ”
Usui vildi ekki að Reiki væri einkaréttur eins hóps, stjórnað eða takmarkað á nokkurn hátt. Hann vildi að það væri aðgengilegt öllum og dreifðist sem víðast um allan heim. Hann taldi að Reiki væri leið fyrir alla til að upplifa hið guðdómlega og vegna þess, væri fólk fúsara til að vinna saman að því að skapa betri heim. Usui féll frá 9. mars 1926 eftir að hafa fengið heilablóðfall þar sem hann var að kenna Reiki tíma í Fukuyama. Hann er grafinn í Saihoji hofinu í Suginami-Ku, Tókýó. Eftir dauða hans reistu nemendur hans stóran minningarstein við hlið grafarinnar með fallegri áletrun sem lýsir lífi hans og starfi með Reiki.
Þegar Usui uppgötvaði Reiki var verið að kenna margar aðrar heilandi aðferðir. Samkvæmt Toshitaka Mochizuki, var Taireidou heilunartæknin byrjuð af Morihei Tanaka og Tenohira-Ryouchi-Kenkyukai, sem þýðir “Samtök fyrir rannsókn á lófameðferð”, sem byrjaði með Toshihiro Eguchi, sem lærði heilun hjá Usui áður en hann stofnaði sína eigin hóp. Eguchi skrifaði einnig bækur um heilun, sem nú er erfitt að finna. Jintai-Ragium-Gakkai, sem þýðir „The Human Body Radium Society,“ var stofnað af Chiwake Matsumoto. Shinnoukyou-Honin var trúarhópur stofnaður af Taikan Nishimura, en aðferð hans var kölluð Shinnoukyou-Syokushu-Shikou Ryoho, sem þýðir „fjólublá græðandi aðferð“. Trúarbrögðin Mahi Kari og Johrei byrjuðu einnig í Japan og hafa bæði miðlæga áherslu á lækningu með höndunum. Athyglisvert er að báðir nota sama táknið og Usui valdi fyrir meistaratáknið. Ég veit ekki hvort einhver tengsl eru á milli þessara heilunarkerfa, en nánast samtímis upphaf þeirra bendir til skyndilegrar aukningar áhuga á lækningum um allt Japan á þeim tíma sem Usui uppgötvaði Reiki.
Eftir að Usui féll frá varð Mr. J. Ushida forseti Usui Reiki Ryoho Gakkai og hann hafði frumkvæði að því að reisa Usui minnisvarðann og skrifaði áletrunina. Hér að neðan er listi yfir forseta Usui Reiki Ryoho Gakkai og áætlaðar dagsetningar þess tíma sem þeir þjónuðu.*
Forsetar Usui Reiki Ryoho Gakkai
Dr. Mikao Usui 1922 – 1926
Mr. Juzaburo Ushida 1926 – 1935
Mr. Kan’ichi Taketomi 1935 – 1960
Mr. Yoshiharu Watanabe? – 1960
Mr. Hoichi Wanami? – 1975
Mrs. Kimiko Koyama 1975 – 1999
Mr. Masayoshi Kondo 1999 – í dag
Hér er listi yfir sjö af þeim sextán kennurum sem Usui sensei þjálfaði. Listinn kemur frá rannsóknum Frank Arjava Petter og Dave King:
Toshihiro Eguchi
Ilichi Taketomi
Toyoichi Wanami
Yoshiharu Watanabe
Kozo Ogawa
Juzaburo Ushida
Chujiro Hayashi
Það vekur undrun að sjá, að eftir að Dr Chujiro Hayashi fékk Shinpiden gráðu frá Dr. Usui, var hann aldrei forseti Usui Reiki Ryoho Gakkai. Eftir að Usui sensei féll frá, klauf læknirinn Hayashi sig frá Gakkai til að stofna sitt eigið félag. Hann hélt ítarlegar skrár yfir allar meðferðir sínar og þróaði sinn eigin Reiki- stíl sem innihélt sérstakar handastöður til að meðhöndla ýmsa sjúkdóma. Kennsluhandbók hans, sem inni-heldur handstöður, er að finna í kafla 19. Þó að Dr. Hayashi væri virtur Reiki meistari og væri forseti eigin samtaka, var hann aldrei stórmeistari Usui kerfisins. Í raun var titillinn aldrei hluti af Usui Reiki.
* Þessar dagsetningar eru fengnar með þeim skilningi að forsetarnir hafi þjónað þar til þeir dóu.
Reiki kennsla
William Lee Rand
Reiki var nokkuð takmarkað þegar Hawayo Takata kom með það til vesturlanda, en eftir að hún fór lést hefur það þróast á annan veg. Nú kennir fólk Reiki af fullkomnu frelsi. Þetta frelsi leyfir tilraunir og þróun nýrrar tækni. En á sama tíma hefur skortur á reglum eða leiðbeiningum gert það að verkum að sum Reiki þjálfun hefur ekki haft það sem fólk þarf til að skilja Reiki og hvernig á að iðka það.
Sum námskeið bjóða nú upp á öll stig Reiki, þar á meðal meistarastig, á einum degi eða einni helgi. Þó að tímaramminn sé mögulegur þá skilur þjálfunin ekki miklum gæðum. Þegar ég talaði við nemendur sem höfðu fengið þjálfun á slíku námskeiði, fann ég að þeir fóru ruglaðir út og skildu í raun ekki hvernig á að veita meðferð eða vígja í Reiki. Sumir þekktu ekki einu sinni táknin eða hver Dr. Usui var. Samt höfðu þeir fengið Reiki meistara diplomu!
Þeir sem hafa farið í slíka þjálfun án nokkurrar annarrar Reiki-þjálfunar eða samskipta við aðra Reikiheilara, halda að þannig eigi Reikikennsla að vera þ.e. eins og sú sem þeir lærðu. Þar sem þeir eru meistarar og þeim sagt að þeir geti kennt, kenna þeir sjálfir námskeið sem á endanum skila enn minni árangri. Þannig fær sumt fólk þjálfun sem í raun gerir lítið úr Reiki og er ekki sanngjarnt gagnvart nemendum.
Þegar nemendur komast að því að þjálfun þarf að vera miklu lengri og að þeir eiga að fá æfingatíma á námskeiðinu, gera þeir sér grein fyrir að þeir þurfa að fá þjálfun af kennara með betri standard.
Þótt staðan sé óheppileg, lít ég á þetta svolítið heimspekilega og rökstyð þannig, að þeir sem hafa raunverulegan áhuga á Reiki muni fá kennsluna aftur hjá góðum kennara.
Lágmarkskrafa fyrir Reiki þjálfun
Hvaða kröfur eru viðeigandi fyrir Reiki þjálfun? Ég hugsa það út frá tveimur þjálfunarstigum. Það fyrra eða grunnstigið er það sem hefur verið notað til að kenna meirihluta Reiki námskeiða um allan heim. Það felur í sér um það bil sama tíma í kennslulengd og gefinn var þegar Reiki var fyrst flutt til vesturlanda. Þetta þjálfunarstig er gott fyrir alla sem vilja nota Reiki fyrir sjálfa sig, fjölskyldu og vini. Það hentar líka mörgum sem vilja iðka Reiki eða kenna. Munið að Reiki er mjög einfalt og öflugt og þjálfun í sjálfu sér ekki nauðsynleg. Margir góðir kennarar hafa orðið til í gegnum grunnnámið.
Hins vegar, fyrir þá sem ætla að verða mjög góðir kennarar, legg ég til að þeir byrji á grunnþjálfuninni sem talin er upp hér að neðan og æfa sig síðan. Þegar þeir eru tilbúnir, geta þeir tekið eitt af þeim lengri kennaranámskeiðum sem í boði eru. Eftirfarandi er yfirlit yfir grunnþjálfun fyrir hverja gráðu.
Kennsluhandbók á að vera til fyrir hvert stig og einnig ætti að leyfa nemendum að hljóðrita og skrifa glósur.
Reiki I
Þjálfun ætti að taka að lágmarki einn dag, þó að sumir leiðbeinendur kenni hana á tveimur eða tveimur og hálfum degi.
Lágmarks kennsluefni ætti að innihalda:
- Saga Reiki.
- Hvað er Reiki og hvernig það virkar.
- Reikireglurnar fimm.
- Reiki I vígsla. Sumir skólar bjóða upp á 1 til 2 vígslur. Aðrir bjóða allt að 4.
- Sýningar- og æfingatími til að veita öðrum og sjálfum sér fullkomnar Reiki meðferðir.
- Valfrjálst, sumar af japönsku Reiki aðferðunum eins og Gassho hugleiðslu, Joshin Kokyuu-Ho, Reiji, Kenyoku og Byosen skönnun.
- Viðbótaræfingar eða hugleiðslur, að mati kennara.
Reiki II
Þjálfun ætti að taka að lágmarki einn dag, þó að sumir leiðbeinendur kenni hana á tveimur eða tveimur og hálfum degi.
Lágmarksefni sem fjallað er um ætti að innihalda:
- Lýsing á öllum táknum, þar á meðal hvernig á að teikna þau, hvað þau þýða og hvernig á að nota þau.
- Hvetja skal nemendur til að leggja táknin á minnið og leggja fyrir þá próf. Þetta er mikilvægt vegna þess að ef nemandi man ekki hvernig á að teikna táknin mun hann ekki geta notað þau.
- Reiki II vígsla. Venjulega gefa kennarar eina eða tvær vígslur.
- Æfingatímar á námskeiði til að nota táknin svo nemandinn viti af reynslu hvernig orka hvers tákns er.
- Valfrjálst, fleiri japanskar Reiki aðferðir eins og: Enkaku chiryo, Koki-Ho, Shu chu Reiki og Gyoshi-Ho.
- Viðbótaræfingar eða hugleiðslur, að mati kennara.
Reiki III A – fyrir þá sem eru að vinna með Reiki
Flestir leiðbeinendur kenna Reiki III námskeiðið eitt og sér, þó sumir kenni aðeins meistara-kennarastigið. Hægt er að kenna þetta á einum degi, þó að sumir leiðbeinendur velji að kenna það á tveimur dögum eða fleiri.
Lágmarksefni sem fjallað er um ætti að innihalda:
- Lýsing á Usui meistaratákninu eða meistaratáknunum sem notuð eru í þeirri aðferð Reiki sem verið er að kenna. Ég segi þetta vegna þess að önnur kerfi en Usui kerfið nota önnur meistaratákn. Kennsla ætti að innihalda hvernig á að teikna táknið, hvað það þýðir og hvernig á að nota það.
- Hvetja skal nemendur til að leggja táknið á minnið og leggja fyrir próf. Þetta er mikilvægt vegna þess að ef nemandi man ekki hvernig á að teikna táknið getur hann eða hún ekki notað það.
- Reiki 3A meistaravígsla. Venjulega gefa kennarar eina vígslu.
- Æfingatími á námskeiði í að nota táknið fyrir meðferðir svo nemandinn viti af reynslu hvernig orkan er.
- Viðbótaræfingar, tækni og hugleiðslur að mati kennarans.
Reiki III B – Meistara- og kennarastig
Hægt er að kenna námskeiðið á tveimur dögum, þó að sumir leiðbeinendur velji að kenna það á þremur dögum eða fleiri. Lágmarksefni sem fjallað er um ætti að innihalda:
- Ræða um hvað það þýðir að vera Reikimeistari þar á meðal ábyrgðina sem fylgir því.
- Valfrjálst, auka aðaltákn frá öðrum kerfum. Ef það er gert, ætti liðir 1 og 2 úr Reiki 3A að fylgja með.
- Vígsla Reiki 3B meistara- og kennaravígsla. Flestir kennarar gefa eina vígslu, þó sumir gefi tvær eða fleiri.
- Sýnikennsla sem sýnir vandlega hvernig vígslur fyrir hvert Reiki stig eru gefnar.
- Æfingatími á námskeiði í því að gefa hverja víglsu.
- Umræða á námskeiði um hvað á að kenna og tími til að svara spurningum.
- Viðbótaræfingar, tækni og hugleiðslur, að mati kennarans.
Reiki hærra stig/framhalds og kennaraþjálfun
Mælt er með þessu námskeiði fyrir þá sem hafa kannski aldrei kennt áður og þurfa frekari stuðning til að verða góðir kennarar. Það er líka fyrir alla þá sem vilja skapa auknar og betri kennsluaðferðir, bæta dýpt við framsetningu kennsluefnis og ná hærra stigi í fagmennsku.
Námið er mismunandi eftir kennurum og því er mikilvægt að skoða námsefni hvers og eins áður en ákveðið er að skrá sig. Tími til að ljúka einhverri af þessum áætlunum er venjulega frá þremur mánuðum til eins árs eða lengur. Kennsluefni sem þjálfun á hærra stigi eða framhaldsnám getur falið í sér er:
- Oft er krafa um að fara yfir öll Reiki stigin einu sinni eða oftar.
- Samkennsla á einu eða fleiri stigum með vígðum Reikikennara.
- Að gefa allt að 100 eða fleiri Reiki meðferðir með því að nota meðferðarform.
- Skriflegt próf er oft skilyrði.
- Sumir fara fram á skrifaðar vinnuskýrslur eða ritgerðir um ýmis Reiki efni.
- Önnur námskeið eru samsett úr miklum tíma með kennaranum en taka einnig til margvíslegra annarra viðfangsefna, þar á meðal andlegra og dulrænna, líkamlega líffærafræði, handstaða við ýmsar aðstæður, persónulegs mats og heilunar, hugleiðslu og andlegrar þróunar.