ÍSLAND – hið forna land Isisar

Translation not available at the moment.

Allt í kringum okkkur eru tákn eilífðarinnar, en fæst okkar taka eftir þeim. Hugmynd fæðist en er svæfð þar sem við höfum ekkert til að byggja á. Ekkert haldbært, bara brot úr hugmynd sem skýtur upp kollinum og lætur okkur ekki í friði en vill samt ekki fæðast til að vera eitthvað sem hægt er að ná tökum á, eitthvað sem gæti orðið að heildrænni mynd sem væri hægt að skoða og sjá frá stærra sjónarhorni.  Þannig hefur það verið með þá hugmynd sem ég ætla nú að leggja fram. Ekki af því að hún sé fullbúin og tilbúin til gagnrýninnar skoðunar, heldur af því að ég held að hún sé brot þekkingar og ég held að margir aðrir hér á landi viti um þessa hugmynd og sjái aðrar hliðar, aðra þætti sem tengjast henni. Hún er eins og púsluspil sem gæti orðið að mynd ef allir leggja sitt púslstykki fram, en verður aldrei að neinu ef allir halda sínu ,,stykki” földu í pokahorninu.

Skjaldarmerki Íslands 

Fyrir rúmu ári var ég að horfa á skjaldarmerki Íslands og það var eitthvað sem fór að naga mig í sambandi við landvættina á merkinu. Þá mundi ég eftir kafla úr bók sem ég hafði nýlega lesið, ,,Beyond Prophecies and Predictions”, en þar var m.a. talað um stjörnumerkin (ef hádegispunktur væri Pýramídinn mikli) og bent á að Nautsmerkið væri í suðri yfir Suður Tyrklandi, höfuð drekans í Drekamerkinu væri í austri yfir Kína Aquila, Örninn í vestri yfir Bandaríkjunum og Herkúlesarmerkið í norðri. Sem sagt Nautið í suðri, Drekinn í austri, Örninn í vestri og Herkúles í norðri. ,,Svo á himni sem á  jörðu” Eins og við munum er tákn Bandaríkjanna Örninn, í Kína er það Drekinn. Nautið er tákn suðursins og ef til vill má tákna norðrið með víkingum (Herkúlesi?), (Ursa Major, Björninn mikli er yfir Rússlandi).

Landvættirnir allir

En það sem nagar mig er: ,,Hvers vegna hefur Ísland öll þessi tákn?”
Flest önnur lönd hafa aðeins eitt. Í Heimskringlu er sagan um landvættina sú að Haraldur Danakonungur hafi verið í hefndarhug þar sem Íslendingar höfðu sett lög um að yrkja skyldi níð um konung fyrir það að Danir höfðu tekið upp á því að hirða fé manna er höfðu brotið skip sín í Danmörku. Haraldur konungur bauð þá seiðkarli að fara hamförum til Íslands og njósna. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins sá hann að fjöll og hólar voru fullir af landvættum, bæði stórum og smáum.
Hann kom inn á Vopnafjörð og ætlaði að ganga á land, en þá kom ofan dalinn dreki mikill og fylgilið hans og blés eitri á hann. Fór hann þá á brott og vestur fyrir land og kom inn í Eyjafjörð. Þar tók á móti honum fugl svo mikill að vængirnir náðu á milli fjalla.
Hann forðaði sér og fór þaðan vestur um landið og inn á Breiðafjörð. Þar tók á móti honum griðungur mikill og lét ófriðlega. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom á móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi og bar höfuið hærra en fjöllin.
Gafst þá karl upp enda skynsamlegast að forða sér.

Hugmyndir um vættina

Tákna þessi merki áttirnar fjórar, frumefnin fjögur (eld, vatn, loft, jörð) og ef svo er, sameinast þau hér á þessum stað? Það er áhugaverð spurning.
Þótt röð landvættanna sé ekki alveg sú sama og í himintáknunum þá er hér um að ræða sömu táknin og það má gæla við þá hugmynd að ,,seiðkarlinn” gæti hafa ruglast á hvaða vættir voru hvar á landinu.
Nokkru síðar rakst ég á grein í Morgunblaðinu eftir fyrrverandi alþingismann. Því miður tapaði ég blaðinu áður en ég gat bjargað greininni, en hann kom með áhugaverðar hugmyndir því hann hafði líka verið að velta fyrir sér táknum skjaldarmerkisins á þessum tíma og tengdi þau guðspjallamönnunum fjórum.
Það sýnir að sömu hugmyndir eru oft að verki hjá fleirum en einum í einu.

Fyrirmynd fjallkonunnar

Aftur rak ég mig á ,,sömu” táknin þegar ég var að skoða tarotspilið sem merkt er 21, þ.e. Veröldin/Heimurinn. Þar eru  táknin fjögur, Ljónið (í stað dreka), Örninn, Engill (Herkúles, bergrisinn) og Nautið.  (Aftur eiga þessi tákn að standa fyrir stjörnumerki og um leið dýrin þrjú og engillinn í sýn Ezekiels sem tákn fjögurra hornsteina himins).
Konan á myndinni er tákn móðureðlis Guðs, Ísis og kransinn í kringum hana er alheimurinn. Konan táknar þarna töluna 1, kransinn 0 og smana mynda þær töluna 10. Talan 10 er talnaspekilega sálartala Íslands, talan 10 er líka samtala þversummu talnanna í nafninu Ísland sem er 5+ þversumma lífstölu íslenska lýðveldisins sem er líka 5=10. 

Súlur efnis og anda

 

Þegar ég síðan skoðaði myndina á tarotspili 2 eða Prestynjunnar gefur að líta kvenveru sem situr á milli tveggja súlna, en þær eru tákn efnis og anda. Súlur Salomons konungs, Jachin og Boaz, sem hann byggði musteri sitt á. Önnur stendur á landi, en hin í sjó. Á milli þessara súlna er strengd þunn slæða. Hún er tengd slæðu egypsku gyðjunnar Ísisar og hylur það sem undirvitundin veit, en sá sem ekki hefur þroska til getur ekki séð.

Búningur Ísisar

Á höfðinu ber Ísis sérkennilegt höfðuðfat með tveim gullböndum og hálfmána ofan á og slöri. Hálfmáninn og böndin benda til næmi og þekkingar á tveim heimum. Hún er klædd bláum kjól sem táknar traust hennar á Guði og kærleika til mannkynsins. Yfir kjólnum ber hún rauða skykkju með gulum bryddingum. Rauði liturinn sýnir þann andlega þroska em hún færir fram í efnisheiminn, en gula bryddingin táknar visku hennar.

Hver er táknmerkingin?

Mér varð starsýnt á höfuðfat Ísisar. Það minnti mig á eitthvað. Og þá mundi ég eftir skautbúningnum okkar, þessu furðulega höfuðfati sem ég hef aldrei getað skilið hvernig nokkur gat fundið upp. Upp af höfðinu beygist höfuðfatið fram í hálfmána, um brún þess liggur gullband og  niður úr hálfmánanum hangir hvítt slör.
Kjóllinn er að vísu oft svartur með bróderuðum bryddingum í mörgum litum, en hann er einnig til blár eins og kjóll Ísisar og ef til vill á einhver konan orðið rauða skykkju til að vera í yfir. Lítum á beltin sem fylgja mörgum af þjóðbúningum okkar. Þau eru skreytt með víravirkiskrossum eins og belti Ísisar.

Táknmynd fortíðar?

Er skautbúningurinn smám saman að þróast í átta að búningi Ísisar?
Er fjallkonan okkar táknið um Ísis?
Er einhver dulin þekking þarna á bak við sem er smátt og smátt að koma fram í dagsljósið án þess að við gerum okkur meðvitað grein fyrir því?
Og svo eru það súlurnar Jachin og Boaz sín hvoru megin við Ísisi. Af hverju henti Ingólfur öndvegissúlum sínum tveimur fyrir borð? Hver er merkingin á bak við þá sögu? Er líklegt að slíkum dýrgripum hefði verið hent fyrir borð upp á von og óvon?
Eða getur verið að Ísland hafi verið byggt hugmyndafræðilega á súlunum tveimur eins og musteri Salomons konungs?
Sagt er að Móses hafi komið frá Egyptalandi með fræðin sem hann færði gyðingum og urðu að hinum duldu kabbalafræðum. Þetta eru merk og mikil fræði fyrir þá sem þora að sjá að ,,steinn er ekki bara steinn” og að skilja að himinn  og jörð eru eilíflega samtengd og að táknin eru allst staðar fyrir þá sem hafa ,,augu til að sjá með og eyru til að heyra með”, það sem vantar er skilningurinn; sem kemur …..fyrr eða síðar.

Að púsla saman brotum

Bókin um Gunnar Dal, ,,Að elska er að lifa”, varð til þess að vekja mig varðandi Ísisar-hugmyndina í tengslum við nafngift Íslands. Um leið og ég las hugleiðingu hans var ég viss að hún væri rétt, enda var þá fjallkonu-hugmyndin farin að leita á mig. En að vera viss dugir mér sjaldnast, ég þarf að fá ,,sannanir” úr fleiri áttum.
Hvatann til að skrifa þetta niður og leyfa að það verði birt, fékk ég þegar ég las viðtal við Erlu Stefánsdóttir í síðasta tölublaði Nýrra tíma. Þar nefnir hún að Ísland sé heilagt land og að þetta sé land Ísisar og fordyr mystísks skóla. Hún nefnir líka vætti landsins og fjallkonuna. Það gaf mér kjart til að leggja fram mitt ,,púslstykki”. og vona ég að aðrir geri það líka, kannski gætum við þá fengið einhverja samstæða mynd. Ég held að ekkert eitt okkar sé með alla myndina.

Þekking forfeðranna

Einar Pálsson heimspekingur, sem nú er nýlátinn hefur lagt fram kenningar um þá þekkingu sem hann áleit að forfeður okkar hafi haft.
Ég held að hvort sem sú þekking hafi verið meðvituð eða ómeðvituð, þá var hún og er kannski enn til staðar.
Ótrúlega margt bendir til þess að viska kabbala-fræðanna (og annara fræða) og þá um leið egypskra (og þangað hefur hún borist einhvers staðar frá) hafi farið langt út fyrir hinn takmarkaða hóp fræðimanna. Barst hún á milli manna? Eða getur verið að sumt af henni berist á annan hátt og eitthvað veki hugmyndina af dvala. Eitthvað sem við heyrum, sjáum eða lesum.
Kviknar líf af sjálfu sér eða hugmynd af engu?

Ég hef alltaf trúað því að Ísland væri merkilegt land. Ekki bara af þjóðrembu, heldur eitthvað..eitthvað…

Höfundur: Guðbjörg Hermannsdóttir, dulspekinemi.

Birt í Nýjum tímum 5. Tbl. 3. Árg. 1996

 

 

Comments are closed.